Áhættuminnkandi aðgerðir

Undirbúningur fyrir brjóstnám

Brjóstnám er mjög stór aðgerð og nauðsynlegt að vera búin að undirbúa sig vel andlega og líkamlega fyrir aðgerðina. Margrét Lilja þurfti að fara í 6 aðgerðir einu ári í sínu brjóstnámsferli og var því komin með smá rútínu hvernig hún undirbjó sig heima og hvað hún tók með sér á aðgerðardaginn. Hér lýsir Margrét Lilja sinni reynslu varðandi undirbúning.

Undirbúningur fyrir aðgerð:

Þegar ég hef fengið næsta aðgerðardag þá set ég upp smá plan í höfðinu. Ég vil vera sem best upplögð fyrir aðgerðina. Oftast hef ég fengið að vita með 1-3 mánaða fyrirvara um fyrirhugaða aðgerð. Auðvitað er enginn eins og hver og einn þarf að gera það sem er best fyrir sig, en svona reyni ég að undirbúa mig;

Hreyfing - Ég vil vera í mínu besta formi á aðgerðardaginn. Það þýðir ekki að ég fari viku fyrir aðgerð og hleyp á hverju degi, síður en svo. Ég stunda reglulega hreyfingu en passa mig að hafa léttar æfingar síðustu 2 daga fyrir aðgerð. Ég vil ekki vera með strengi á bataferlinu ofan í allt annað.

Andleg heilsa - Jákvæðni skiptir öllu máli. Bæði fyrir og eftir aðgerð reyni ég eftir öllum mætti að vera meðvituð um það að ég ein geti haft áhrif á líðan mína og ég vel að hugsa um góðu hlutina og það jákvæða í kringum mig. Ég reyni að takast á við krefjandi verkefni með jákvæðu hugarfari. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli sólahring fyrir aðgerð og dagana eftir aðgerð.

Matarræði - ég reyni að  hugsa vel um mataræðið. Á síðasta ári hef ég gert töluverðar breytingar á mataræðinu hjá mér, en það hefur gerst mjög hægt og er bara eitthvað sem ég hef í huga. Ég reyni að minnka sykur og bæta við grænmeti, ekkert bannað samt nema kannski svona helst svart gos. Tveim vikum fyrir aðgerð hætti ég að taka vítamín og lýsi en það geta alltaf verið aukaefni í svoleiðis sem valda vandamálum, hverjum hefði t.d. dottið í hug að lýsi væri blóðþynnandi og gæti því valdið vandamálum í aðgerðum? Ég gæti alveg farið með vítamínin til læknisins og beðið hann að fara yfir öll innihaldsefnin, en mér finnst bara betra að sleppa þeim.

Aðstaða - Ég fékk rafmagnsrúm rétt fyrir fyrstu aðgerðina. Við höfðum eiginlega ekki pláss fyrir það (erum núna með 3 rúm inni í hjónarherbergi) en ég hefði EKKI viljað vera án þess. Ég hef alla tíð sofið á maganum eða hliðinni, en eftir brjóstnám þá er það ekki hægt. Fyrstu dagana eða jafnvel vikurnar á eftir sef ég í rafmagnsrúminu og ef ég vakna af því mér finnst eins og þurfi að hreyfa mig, þá breyti ég aðeins stöðunni á rafmagnsrúminu og held áfram að sofa. Annað sem ég passa að sé í lagi er t.d. tengi fyrir símann og svo set ég tannburstann minn á sömu hæð og hjónaherbergið er (ég bý á tveimur hæðum). En þá þarf ég ekkert að vera að fara upp og niður stigann að óþörfu  fyrstu dagana eftir að ég kem heim. Ég pasa upp á að hlutir sem ég vil hafa aðgengilegir séu það. Síðan fara alltaf síðustu tveir dagarnir í að þrífa heima hjá mér, þvo rúmfötin o.fl.

Gott að taka með sér upp á spítala:

  • Símabatterí - til að hlaða símann en hafa hann samt nálægt þér. Væri líka nóg að vera með langa hleðslusnúru.
  • Headphone - til að geta hlustað á sögu
  • Skyrtu eða peysu sem er rennd eða hneppt að framan - eitthvað sem er auðvelt að fara í og úr.
  • Þægilegar buxur sem auðvelt er að fara í og úr - þótt aðgerðarsvæðið sé brjóstkassinn þá getur maður verið aumur að nota hendurnar og því gott að það sé ekki vesen að fara í og úr buxunum.
  • Belti eða eitthvað til að festa drenin í - lang flestir ef ekki allir vakna með dren eftir brjóstnám, og gott er að vera búin undir það
  • Súkkulaði - ég hef reyndar ekki gert þetta. En var eiginlega hálf skömmuð fyrir það síðast á vöknun að hafa ekki komið með eitthvað þar sem ég er alltaf með svima og yfirliða vesen, þannig ég bæti því á listann til að taka með næst.