Á brakkann að sækja - mars 2018

Á BRAKKANN AÐ SÆKJA - Alþjóðleg ráðstefna um BRCA og arfgeng krabbamein

Þrír erlendir fyrirlesarar voru með okkur á ráðstefnunni og meðal þeirra Dr. Sue Friedman, sem var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar.

Um Sue Friedman: 

Sue Friedman er forstöðumaður bandarísku krabbameinssamtakanna Facing Our Risk of Cancer Empowered - FORCE.  

Sue greindist með arfgengt brjóstakrabbamein 33 ára gömul. Henni fannst skorta upplýsingar og úrræði til þeirra sem greinast með arfgengt krabbamein í brjóstum og eggjastokkum, til að geta tekið ákvarðanir varðandi áframhaldandi meðferð. Því stofnaði hún samtökin Facing Our Risk of Cancer Empowered - FORCE í þeim tilgangi að veita upplýsingar og ráðgjöf til þeirra sem eru með arfgeng krabbamein. Fljótlega eftir það hætti hún starfi sínu sem dýralæknir til að helga samtökunum krafta sína.

Sue hefur átján ára starfsreynslu sem forstöðumaður FORCE, þar sem áhersla er á þarfir þeirra sem greinast með arfgeng krabbamein með fræðslu á landsvísu, rannsóknir ásamt  fræðslu- og þrýstihópum fyrir málstaðinn.

Sue er í forsvari fyrir vefsíðu FORCE, þar sem ritrýndar upplýsingar eru að finna um hvaðeina sem snertir arfgeng krabbamein. Hún er einnig aðalrannsakandi og ritrýnir eXaminging the Relevance of Articles for Young Survivors (XRAYS) sem sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) fjármagnar. Hún ritrýnir einnig greinar sem ætlaðar eru ungu fólki með BRCA.

Markmiðið með XRAYS, er að umskrifa vísindagreinar um rannsóknir á auðskiljanlegu máli og taka saman helstu niðurstöður úr þeim í þeim tilgangi að auðvelda ungum konum og körlum að afla sér nauðsynlegra upplýsinga áður en áframhaldandi ákvarðanir eru teknar um læknisfræðileg inngrip.

Þá er Sue meðstjórnandi í ABOUT, sem eru rannsóknarskrár á vegum þeirra sem eru greindir með arfgeng krabbamein. Hún býr í Tampa í Flórída.