Brakkasamtökin og Safnahús Vestmannaeyja standa fyrir ljósmyndasýningu um krabbameinsferli ungrar konu sem er BRCA arfberi.
Of ung fyrir krabbamein? Saga Sóleyjar eftir Þórdísi Erlu Ágústsdóttur opnar 30. apríl næstkomandi í Einarsstofu í Safnahúsi Vestmannaeyja.
Jóhanna Lilja varaformaður Brakkasamtakanna fjallar um reynslu sína sem BRCA arfberi. Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir og Sóley Björg Ingibergsdóttir taka þátt í umræðum um BRCA og arfgeng krabbamein.
Ljósmyndirnar eru eftir Þórdísi Erlu Ágústsdóttir sem hefur fylgt Sóleyju eftir í nokkra mánuði.
.png)
Nánar um sýninguna:
Sóley Björg Ingibergsdóttir greindist með brjóstakrabbamein aðeins 27 ára gömul. Sóleyju datt í hug að athuga hvort hún hefði BRCA2 meinvaldandi breytingu í geni þegar Íslensk Erfðagreining opnaði aðgang að þeim upplýsingum vorið 2019. Hún var 25 ára á þessum tíma og ekki þekkt áhætta um krabbamein í nánustu fjölskyldu Sóleyjar. Í kjölfar niðurstöðu greiningarinnar um að vera BRCA2 arfberi hélt Sóley að hún myndi byrja í reglulegu eftirliti en það átti ekki að byrja fyrr en eftir fimm ár og átti hún að koma aftur þá. Tveimur árum síðar finnur Sóley Björg sjálf hnút í brjóstinu og greinist í kjölfarið með brjóstakrabbamein. Hún hefur nú farið í lyfjameðferð, tvöfalt brjóstnám og nýlokið geislameðferð.
Myndefni ljósmynda sýningarinnar er dramatískt og það verður ekkert reynt að komast hjá því þar sem ætlunin er að undirstrika það hvernig lífið með BRCA getur umbylt lífi fólks. Sóley Björg er hugrökk ung kona sem er tilbúin til að segja og sýna sögu sína til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Sóley Björg deilir ferlinu sínu á instagram: soleybjorg.
Sýningin er farandssýning um landið og mun staldra við í Vestmannaeyjum 30. apríl - 29. maí 2022.
.png)
Markmið:
Ljósmyndasýningin er haldin til vitundarvakningar fyrir bæði almenning og þá sem ákveða umgjörð og stefnu heilbrigðiskerfisins sem og fyrir fólk með meinvaldandi breytingu. Einnig að upplýsa og fræða, ná til arfbera, fræðimanna, aðstandenda og hvetja til áframhaldandi umræðna og rannsókna á sviðinu. Síðast en ekki síst er markmiðið að vekja athygli á stöðu kvenna og karla varðandi arfgeng krabbamein á Íslandi í heild sinni.
.png)
Þökkum styrktaraðilum innilega fyrir stuðninginn.
Hægt er að styrkja Brakkasamtökin með því að leggja beint inn eða hafa samband ef þið óskið eftir að fá reikning.
Brakkasamtökin
Kennitala: Kt. 571215-2250
Reiknisnúmer 0331-26-002356
brakkasamtokin@gmail.com

