Skotganga - til styrktar Göngum saman

Eigendur Skotgöngu, Inga, Snorri og Magga, eru í stífum æfingum fyrir áheitagöngu til styrktar Göngum saman 20.-24. maí. Þau ætla að ganga West Highland Way sem er 154 km löng! Þetta er ein vinsælasta gönguleið Skotlands og þau ganga hana venjulega með hópa á 7 dögum en ætla að ganga hana á fjórum dögum. Göngum saman eru samtök sem styðja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameinum á Íslandi.

Iðunn Geirsdóttir systir Ingu hefði orðið 50 ára á þessu ári, en hún lést úr brjóstakrabbameini aðeins 47 ára. Iðunn vann brautryðjendastarf í þágu Brakkasamtakanna og var ein af stofnfélögum samtakanna. Iðunn skipulagði göngur fyrir Göngum saman á Austurlandi og lagði félaginu lið á ýmsan hátt.

"Við erum búin að dunda við að mála á 50 steina - fallegar, bjartar og gleðjandi myndir eins og Iðunn var og ætlum við að dreifa þessum steinum með reglulegu millibili upp leiðina, einn stein fyrir árin 50 sem mun vonandi gleðja augu þeirra 85 þúsund einstaklinga sem ganga leiðina árlega" segir Inga.  

Myndin af þeim systrum er frá 2015 þegar Inga og Kristín, systur Iðunnar, buðu henni í uppbyggingarferð til Tenerife.

Samhliða göngunni í Skotlandi þá verða göngur á Íslandi líka, m.a. Göngum saman á Akureyri. Einnig mun frændfólk og vinir Iðunnar á Hvammstanga ganga Vatnseshringinn sem er ca. 90 km.

Hægt er að styrkja áheitagönguna  á slóðinni hér að neðan:

https://gongumsaman.is/styrkja-felagid/  og fylgjast með göngunni þeirra á facebooksíðu Skotgöngu.